Að njóta lífsins

 

Nú er ég komin á þann stað að atvinnuleysi er talið eðlilegur hluti lífsins. Ég er sem sé ekki lengur í fastri launaðri vinnu (takið eftir orðalaginu, ég er sko ekkert hætt að vinna!). Í gær tæmdi ég litlu skrifstofuna mína í Stakkahlíð þar sem mér hefur liðið svo vel undanfarin 15 ár eða svo. Ég var heppin að fá þessa skrifstofu á sínum tíma því henni fylgdi félagsskapur þess ágæta fólks sem hefur aðsetur í Kletti en það heiti ber okkar hluti hússins. Undarlega margir hafa spurt mig á síðustu vikum hvort ég ætli ekki bara að fara að njóta lífsins. Þetta er kannski stöðluð spurning og staðlað svar þegar eftirlaunaþegar eru spurðir hvernig þeir ætli að verja tímanum þegar þeir þurfa ekki lengur að mæta í vinnu á hverjum degi: Ég ætla bara að njóta lífsins.

Ég fór að velta þessu fyrir mér: Að njóta lífsins? Hvar gerir maður það og hvernig? Ég hef notið lífsins ríkulega undanfarna áratugi  í leik og starfi. Ég hef fengið tækfæri á þessum árum til þess að búa á þremur stöðum um nokkurra mánaða skeið og hef notið þess. Fyrst í Odense, svo í Edinborg og loks í Helsinki – á öllum stöðunum var gott að vera.  Á þessum stöðum bjó ég ein, a.m.k. hluta tímans, og það var þá sem ég áttaði mig á því hvað skiptir mig mestu máli, hvers ég nýt mest og best í mínu litla lífi. Það er nefnilega hvunndagurinn sem ég sakna þegar eitthvað veldur því að röskun verður á högum mínum, þessi venjulegi mánudagur eða miðvikudagur, með öllu því sem slíkum dögum fylgir: Eigum við nóg kaffi? Hvað eigum við að hafa í matinn í kvöld? Er búið að kaupa afmælisgjöf fyrir hinn eða þennan? Þessir dagar þar sem ekkert markvert gerist í vinnunni og þar sem allt er með kyrrum kjörum á heimavelli. Ég hef notið þessara daga og nú hef ég enn lengri tíma til að njóta slíkra stunda.

Ekki síður hef ég notið vinnunnar minnar og félagsskaparins sem hún hefur boðið upp á. Ég hef virkilega notið þess að kenna og mér finnst ég hafa verið einstaklega heppin að hafa valið mér þann starfsvettvang. Þegar ég kenndi í Kvennaskólanum man ég hvað það var alltaf mikil tilhlökkun í loftinu þegar ég gekk gegnum fallega Hallargarðinn þar sem hansarósir voru enn í blóma við upphaf skóla. Hvað það var gaman að hitta vinnufélagana og hvernig við tuðuðumst í gegnum annirnar saman og uppskárum svo að lokum í útskrift vorsins. Dásamleg hringrás og lífsnautn að vera innan um allt þetta fallega unga fólk.

Ekki síður hef ég notið mín í því mikilvæga hlutverki að kenna kennaraefnum að kenna móðurmálið – ég hef tekið það alvarlega en samt notið þess í botn. Skemmtilegar umræður um allt milli himins og jarðar í hádeginu á kennarastofunni með Óla Proppé eins og húsföður fyrir borðsenda fyrstu árin eru líka ofarlega í minninu. Mikið var oft gaman og vonandi verður gaman áfram þótt eldhúsinnréttingin sé breytt og nýtt fólk hafi bæst í hópinn. En þessa alls hef ég notið.

Ég hef líka notið þess að hafa tíma til að skrifa og nú hef ég enn meiri tíma til slíkra verka. Kannski finn ég mér eitthvað að gera – einhverja kennslu einhvers staðar, hver veit.  Margrét vinkona mín tekur við skrifstofunni minni – hún erfir spegilinn minn svo hún geti lagað á sér hárið áður en hún fer í kennslu – engin hætta á því að hún fari ógreidd á fund nemenda. Ég spila ekki golf, ég hef ekki undirbúið mig undir eftirlaunaaldurinn frekar en ég undirbjó mig undir að verða unglingur eða miðaldra. Ég kvíði hins vegar engu og held áfram að njóta lífsins … á minn hátt.


Meira kaffi?

 

Ég átti afmæli í febrúar. Ekkert nýtt við það – þannig hefur það verið síðan ég man eftir mér – og líka fyrir þann tíma er mér sagt. Á hverju ári hef ég fagnað afmælisdeginum mínum, skellt í köku og gefið kaffi. Stundum haldið stórveislu. Núna var mér boðið í fínan mat heima hjá mér og átti reglulega notalegan dag með fjölskyldunni.

Ég hef lengi vitað að þessi tiltekni afmælisdagur markaði starfslok – þ.e. að þá myndi ég hætta launaðri vinnu. Ég hef ekkert kviðið því (nema fjárhagshliðinni) – hef reyndar ekkert mikið hugsað um þessi tímamót. Venjulega tekur eitt tímabil við af öðru, eða eins og sagt er, þegar einar dyr lokast opnast aðrar. Rannsóknir og skrif hafa verið stór hluti af starfi mínu sem háskólakennari og ég sá ekki annað fyrir mér en meiri tími gæfist til slíkra verka eftir þetta afmæli en fyrir. Ég gerði mér alls ekki grein fyrir því hvaða dramatísku breytingar yrðu á sjálfri mér eftir þessi tímamót – að mati samfélagsins, meina ég. En það kom fljótlega í ljós.

Um nokkurn tíma – kannski síðustu þrjú árin eða svo – hafa mér borist boðsbréf frá Vinstri grænum og Samfylkingunni – nei, ekki sama bréfið heldur tvö aðskilin bréf – alltaf einu sinni í mánuði þar sem mér er boðið í kaffi og meððí á vegum þessara flokka og oft er að auki boðið upp á upplestur eða önnur áþekk skemmtiatriði. Þessi tvö bréf bárust að venju í febrúar eins og endranær. En nú bættist við eitt bréf enn. Eftir þennan afmælisdag – bara örfáum dögum síðar – barst boð frá félagi fyrrverandi háskólakennara – það heitir kannski eitthvað annað – og giskið nú á erindið! Jú, mér var boðið í kaffi og meððí og fyrirlestur í Safnaðarheimili Neskirkju. Mér þótti vænt um boðið og er viss um að allar þessar samkomur eru áhugaverðar. Ég á áreiðanlega eftir að þiggja eitthvert þessara boða. Bara ekki strax.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég finni ekkert fyrir hækkandi aldri – það væri lygi. Ýmislegt sem var auðvelt fyrir nokkrum árum er mér erfiðara nú. Þetta gildir þó alls ekki um innra líf eða þá vinnu sem ég hef innt af hendi. Samt er eins og einhver sameiginlegur skilningur fólks (hvaða fólks?) sé sá að eftir þennan afmælisdag verði aðal áhugamálið að drekka kaffi og borða bakkelsi. Að þannig sé félagslegum þörfum og vitsmunalífi  eftirlaunaþega best þjónað. Ég sé þetta ekki alveg fyrir mér. Auðvitað sé ég að það gæti verið gaman að hitta fyrrverandi samstarfsfólk yfir kaffibolla einu sinni í mánuði en hvað svo?

Ég velti fyrir mér hvort ekki sé eitthvert hugmyndaleysi ríkjandi í framboði á tómstundastarfi eftirlaunaþega? Kaffi og rjómakökur – maður fengi fljótlega upp í háls af  slíkum trakteringum. Ég veit… það er ýmislegt í boði, línudans, perlusaumur og glermálun. Ég skoða þetta … eða ekki. Ekki strax – kannski seinna. Enn hef ég nokkuð að iðja … en kannski mæti ég einhvern tíma í kaffi. Takk fyrir boðið!


Eðlisþættir manna

 

Þegar maður ekur um innanbæjar á Stór-Reykjavíkursvæðinu er oftast um stuttar vegalengdir að ræða og því vonlaust að maður heyri samfellda dagskrá í útvarpinu. Þess í stað heyrir maður glefsur úr ýmsum áttum. Stundum minnir það mig á leikþátt sem við lékum stundum í Vindáshlíð þar sem aðalleikarinn stillir til skiptis á ýmsar útvarpsstöðvar þannig að út kemur óskiljanlegur texti, settur saman úr nokkrum ólíkum þáttum, t.d. matreiðsluþætti og erindi um ungbörn. Þessar útvarpsglefsur sem maður hirðir upp í bílnum geta sest að í hausnum á manni og vakið forvitni á málefninu en oftar fer þetta inn um annað eyrað og út um hitt og skilur fátt eftir.

Á leiðinni inn í Reykjavík í dag heyrði ég konu á Rás 1 segja að það væri náttúrulegt ástand mannfólksins að vera hamingjusamt. Ég held að hún hafi rétt fyrir sér. Ég held líka að það sé náttúrulegt ástand manna að vera góðir, hjálpsamir, réttlátir og viðmótsþýðir. Allt annað er áunnið, held ég, eða því vil ég trúa, félagsmótun myndi það sennilega vera kallað. Umhverfið sem við höfum búið okkur er ekkert sérlega vel fallið til þess að ýta undir þessa meðfæddu eiginleika og þess vegna sjáum við að þeir eru ekki endilega það sem verður ofan á.

Orð konunnar settust að í mér og ég hélt áfram að hugsa um þau þar sem ég ók inn í miðbæ Reykjavíkur. Þar mátti sjá fáeina einstaklinga á ferli í hálfmyrkrinu, hnípnir stauluðust þeir um svellaðar gangstéttar, niðurlútir og svipþungir. Það vakti athygli mína að allir voru þeir dökklæddir, klæddir í svart, brúnt og grátt, og mér datt í hug að ef hér væri borgarstjóri af sama kalíber og Kim Jong-il gæti sá fyrirskipað að allir yrðu að klæðast gulum, appelsínugulum eða rauðum yfirhöfnum frá nóvember og fram í mars – hann gæti m.a.s. látið hreinsa út aðra liti úr verslunum. Við viljum auðvitað ekki stjórnanda af því tagi. Við viljum ekki að allir séu eins – við viljum að hver og einn hafi val og geti hagað lífi sínu – og klæðnaði – að eigin ósk (auðvitað innan einhverra marka sem við komum okkur saman um). Þessar vangaveltur minntu mig á frétt sem ég las í morgun um nýskipan í mannréttindaráð Reykjavíkur – val einstaklings sem þar hlaut kosningu olli mér heilabrotum.

Ég geri það af kvikindisskap við sjálfa mig að stilla stundum á Útvarp Sögu – þetta hef ég gert árum saman af þeirri einföldu ástæðu að þetta er oft eina stöðin þar sem talað mál er í öndvegi – ekki tónlist. Mér finnst einfaldlega betra að hlusta á mælt mál á meðan ég sit undir stýri. Mér hefur líka þótt þetta athyglisvert vegna þess að á þessari stöð heyri ég oft sjónarmið sem koma mér á óvart og segja mér að ég umgangist kannski einsleitan hóp fólks með svipaðar skoðanir og ég sjálf. Á Útvarpi Sögu hlustaði ég einhverju sinni á þátt sem þessi umræddi nefndarmaður stýrði og þar sem hann lét skoðanir sínar í ljós, umbúðalaust. Ég hafði aldrei heyrt neinn samlanda minn tala með þessum hætti og mér létti þegar ég heyrði að hann hefði verið látinn hætta á útvarpsstöðinni. Þeir sem kusu þennan mann í mannréttindanefnd hljóta að hafa haft vitneskju um skoðanir hans – þær hafa legið ljóst fyrir.  Mér létti þegar ég heyrði síðar í dag að skipan þessa manns hefði ekki mælst vel fyrir hjá fólki og hún yrði dregin til baka. En hverjum datt í hug að fá hann í þessa nefnd? Nú vitum við hverjir greiddu atkvæði með – en ég vil vita af hverju þeir gerðu það – mér fyndist það einfaldlega fróðlegt.

Hugleiðingar morgunsins um eðlisþætti mannskepnunnar entust mér sem hugsanafóður fram á miðjan dag og ég velti fyrir mér hvað veldur því að í öllum samfélögum rísa upp einstaklingar sem vilja gera öðrum einstaklingum mein. Einstaklingar sem hata alla þá sem hafa aðrar skoðanir en þeir sjálfir. Einstaklingar sem telja sjálfa sig öllum fremri. Einstaklingar sem í krafti auðs og valds traðka á öðrum. Einstaklingar sem telja sig hafa umboð til þess að ráða örlögum annarra. Hvers vegna gerist þetta? Ég er ekki að biðja um svör. Ég er bara að velta vöngum og auðvitað veit ég að ástæðurnar eru margar og flóknar og mínar vangaveltur snúa einungis að því hvernig hægt sé að vinna gegn þeim. Smátt og smátt.


Illilega seinkuð dægurgerð

 

Ég hef alltaf vitað að fólk skiptist að minnsta kosti í tvo hópa hvað varðar háttatíma og fótaferðartíma. Þessir hópar eru merktir A og B og talað um A-fólk og B-fólk. Þetta vita allir. A-fólk er það sem fer klukkan fimm út að hlaupa eða mætir kl. 6 í ræktina. Eða sest við tölvuna og skrifar ljóð, skáldsögu eða fræðilega grein. Allt fyrir klukkan 8. Þetta er fólk sem er alveg rólegt þó að það missi af vökutímanum milli 10 á kvöldin og 2 á nóttinni. Skemmst er frá því að segja að hegðun B-hópsins er nákvæmlega þveröfug; þessi hópur afrekar ekki mikið fyrir hádegi, ég held mér sé óhætt að segja það, svo lengi hef ég tilheyrt þessum hóp.

Ég veit ekki um neinar rannsóknir sem sýna fjölda fólks í hvorum hóp en samfélög virðast yfirleitt hafa gefið sér að A hópurinn sé sá sem miða á við. Hann er kallaður A sem er auðvitað B-inu æðra og svo eru allar stofnanir samfélagsins miðaðar við fólk sem fer snemma á fætur. Þetta veldur því að sumir mæta til vinnu þegar þeir ættu í raun að vera sofandi.

Mér hefur alltaf þótt þetta óréttlátt. Og ég hef alltaf haft horn í síðu A-fólks vegna þess að það hefur tilhneigingu til að tala drýgindalega um morgunafrekin. Og það þoli ég ekki. Ég kenndi um árabil í framhaldsskóla. Þar mátti vitaskuld sjá þessa skiptingu í tvo hópa; sumir nemendur komu valhoppandi í skólann, brosandi og frískir; hinn hópurinn, sem í minningunni er jafnvel stærri, átti verulega erfiða tíma hjá kennara sem vildi sjálfur helst vera undir sæng.

Skóli austur á landi ákvað að færa skólatímann aftur og byrjar nú seinna, eða kl. 9 minnir mig. Ég heyrði líka um danskan skóla sem setti stundaskrána sína upp þannig að allir verklegir tímar eru fyrst og síðast á deginu og nemendur hafa val um hvorn tímann þeir velja; ef þeir velja að taka verklegu greinarnar fyrst á morgnana eru þeir búnir fyrr á daginn en hinir sem velja að byrja síðar. Þetta finnst mér snjöll lausn og hún virðist árangursrík, nemendur mæta betur og falla því síður á mætingu.

Af hverju ekki að reyna svona sveigjanleika víðar en nú þegar er gert?  Bæði í skólum og á vinnustöðum? Ég hef heimsótt marga framhaldsskóla undanfarin ár og þar hef ég séð nemendur tínast inn í stofuna, einn og einn og einn eftir því sem líður á fyrsta tímann, þessir nemendur eru oft fleiri en þeir sem þegar eru sestir kl. 8.20. Af hverju hættir okkur til að hafa svona ferkantaðan ramma utan um skóla og vinnu? Af hverju ekki að viðurkenna að fólk er ekki allt eins og taka mið af því?

 


Gengisfelling orða

Viðtal úr Kastljósi hélt fyrir mér vöku í nótt. Þar sagði 15 ára gömul stúlka frá einelti sem hún hafði orðið fyrir um árabil í þremur skólum. Eineltið náði svo nýjum hæðum þegar stúlkan skráði sig á alræmdan samskiptamiðli þar sem notendur geta komið fram undir nafnleysi. Stúlkan var björt yfirlitum, sagði vel og skilmerkilega frá og dæmdi engan. Hún var jafnvel til í að fyrirgefa þeim sem höfðu gert henna illt. Lagt hana í einelti.

Einelti er ofnotað orð – það er talað um einelti ef blaðamenn krefjast svara frá stjórnmálamönnum og ítreka ósk sína um skýr svör. Ekki síst hefur verið talað um að forsætisráðherra vor hafi orðið fyrir ítrekuðu einelti. Merking orðsins hefur því svolítið útvatnast þegar hér er komið sögu.

Það er ekkert nýtt að orð verði ónothæf í okkar máli. Við erum t.d. löngu búin að útrýma þeim orðum sem á síðustu öld þótti við hæfi að nota um t.d. um, nýja Íslendinga, samkynhneigða og geðfatlaða svo dæmi séu tekin. Orð ganga úr sér – það er bara staðreynd. Þar er ekki við orðin að sakast heldur samfélagið sem hengdi á þau merkimiða sem þau hafa ferðast með milli kynslóða. Orðin koma nefnilega ekki til okkar hrein og óspjölluð, þau koma ekki beint úr orðabókunum. Þau koma til okkar eins og lúin ferðataska, snjáð á hornum og þakin gömlum, þvældum merkimiðum þar sem grilla má í neikvæðnina sem þau hafa sankað að sér á fyrri áfangastöðum.

Farangurinn sem orðin burðast með – oftast mjög neikvæðar aukamerkingar orðanna – gerir þeim á einhverjum tímapunkti erfitt fyrir. Og þá þarf að finna ný orð. Þetta gerist stundum svo hratt að fólk á í vandræðum með að muna hvaða orð er talið viðeigandi nákvæmlega þá stundina.

Kannski er “einelti” eitt af þessum orðum sem nú hefur glatað upprunamerkingu sinni sem hlýtur að fela í sér að einn sé eltur af mörgum … eða hvað? Að hópur ráðist að einstaklingi? Ég held í raun að einelti sé orðið alltof linkulegt orð til að nota yfir það sem stúlkan í Kastljósi talaði um. Ég vil kalla það sem hún lýsti ofbeldi og ekkert annað. Þangað til að það orð missir merkingu sína.

Hér er einkum dvalið við orðið “einelti” sem notað er yfir ofbeldi af ákveðnu tagi. Um verknaðinn sjálfan og ekki síst afleiðingar hans á þolendur má margt segja, t.d. niðurbrotið á einstaklingnum sem verður fyrir því. Hvernig hann smátt og smátt missir sjálfstraust, sjálfsvirðingu og trúna á annað fólk. Þetta verður ekki rætt í þessum pistli – kannski seinna. Og umræða um þá sem beita þessu ofbeldi er líka löngu tímabær – hverjir eru þeir? Hvað gerði þá svona grimma? Og hvað er að þeim sem horfa bara á og blanda sér ekki í málin? Við hvað eru þeir svona hræddir og hver er ástæðan fyrir hræðslunni?


Kirkjan og við hin

Ég er síður en svo á móti kirkjum, moskum, sýnagógum eða hverjum öðrum þeim byggingum sem reistar eru fyrir fólk að iðka sína trú. Ég hef heldur ekkert á móti trúarbrögðum - engum. Ég þurfti mikið á því að halda sem barn að trúa - þarf jafnvel enn - og það hefur aldrei gert mér neitt illt.Trúarbrögð eru ekki slæm en margt illvirkið hefur verið unnið í skjóli trúarinnar eða jafnvel í nafni hennar.Það er ekki trú eða trúarbrögðum að kenna.

Trú er eitt - ríkisstofnunin "kirkja" annað og ég er ekki nærri eins hrifin af henni eins og trúarbrögðum og stökum guðshúsum. Þessi umrædda ríkisstofnun varð fyrir niðurskurði eins og aðrar slíkar, t.d. skólar, sjúkrahús og RUV svo einhverjar séu nefndar. Nú á að bæta kirkjunni upp niðurskurðinn. Jahá. Rökin? Hver eru þau?

Læknar eru í verkfalli, eldri nemendur (eins og ég var á sínum tíma) komast ekki í framhaldsskóla, framhaldsskólinn er og hefur verið sveltur og nú verður hann styttur (en auðvitað alls ekki í sparnaðarskyni), RUV er á hvínandi hausnum og kennarar gætu fellt sinn samning í næsta mánuði ... Þá getum við öll prísað okkur sæl yfir því að búið verður að koma kirkjunni á réttan kjöl.


Horft yfir veginn - bæði afturábak og áfram

Er blogg eitthvað fyrir mig? Er ekki viss! En ákvað samt að prófa. Ég á það til að skrifa alltof langar færslur í fésbókina svo blogg gæti kannski tekið yfirfallið þar.

Ég hef aldrei bloggað en notaði um skeið blogg með nemendum mínum í Kennaraháskólanum gamla - það gekk prýðilega. Margir nemendanna voru fjarnemar og þetta hentaði þeim vel. 

Nú hefst kennsla að nýju í næstu viku - síðasta kennsluárið mitt, því miður. Vona samt enn að ég fái að hlaupa inn í einhver námskeið svona við og við þótt starfi mínu verði formlega lokið. Ég er eitthvað hálftilfinningalaus fyrir þeim miklu tímamótum sem eru framundan en mjög þakklát fyrir að hafa þó fengið 32 ára kennsluferil út úr þessu brölti mínu í nám á "gamals aldri". Ég varð stúdent 35 ára og útskrifaðist með BA próf 39 ára og var þá þegar byrjuð að kenna í Kvennaskólanum, sællar minningar. Það sem ég var annars heppin að lenda þar og fá að kynnast þessu dýrðar fólki sem þar var fyrir og fá að sprikla og spreyta mig á eigin forsendum. Þar leið mér vel en það er svo skrýtið að þegar mér fer að líða of vel einhvers staðar þá þarf ég að fara. Ég hef aldrei séð eftir því að hætta í Kvennó og fara í KHÍ en ansi hreint hefur vistin á síðarnefnda staðnum verið ólík þeirri í Kvennó. 

Það er mikil gæfa að fá að vinna við það sem manni finnst skemmtilegt - fá að njóta þess sem maður hefur lært og miðla því til annarra. Mér hefur fundist þetta frábært. Aldrei einfalt en frábært.Vinnan í kennslustofunni er það sem ég nýt mest - samveran með nemendum, spjallið við þau í kennslustofunni og umræður um framtíðarstarf þeirra ... allt er þetta mjög gefandi.

Eftir viku fer ég að kenna einu sinni enn Skapandi málnotkun í grunnskóla - en það námskeið hefur mér þótt skemmtilegt að kenna - þetta er sennilega í þriðja skiptið sem ég er ein með það námskeið - áður vorum við þrjú saman. Nemendur komast þar að ýmsu um sjálfa sig og sérstaklega þó því að í okkur öllum er skapandi afl sem við þurfum að fá aðgang að og nýta í kennslustofunni. Það hefur komið mér á óvart hversu litla trú nemendur hafa á eigin sköpunarkrafti - mörg þeirra segja "ég er ekkert skapandi". Vissulega höfum við fengið misstóran skammt af skapandi hugsun - veit samt ekki "hvernig" við fáum þennan skammt - held eiginlega að skapandi hugsun og skapandi starf verði til við það að skapa - það opnast einhver uppspretta sem ekkert lát virðist svo vera á. Þetta er mín reynsla og nokkrir nemendur hafa líka upplifað þetta. Þau hafa líka nefnt hversu hollt það hafi verið þeim að vinna verkefni sem þau héldu í upphafi að þau réðu alls ekki við en svo hafi þau engu að síður leyst verkefnin með prýði. Þau tala um að þau hafi stigið út úr þægindarammanum og farið út í óvissuna án þess að vita hver niðurstaðan yrði - og í lokin hafa þau stundum verið hissa á eigin frammtistöðu. Þetta finnst mér skemmtilegt. 

En nú lít ég yfir farinn veg - kennsluferli mínum senn lokið og óvíst hvað tekur við. En er það svosem ekki alltaf óvíst? Ég kem sjálfri mér á óvart núna með því að halda að nú taki eitthvað óvænt og skemmtilegt við (í alvöru!) - eins og ég sjái fyrir mér einhverja nýja ögrun, einhvern annan vegspotta að halda. Ég vona að þessi tilfinning yfirgefi mig ekki og vona líka að þessi tilfinning sé öllum sameiginleg. Annars væri svo margt í þessu lífi óyfirstíganlegt og leiðinlegt.

Þetta blogg er bara byrjunin - svolítið melankólískt, ég veit, en það er bara ég á þessum árstíma. Tímamót virka svona á mig. Og nú eru þreföld tímamót - áramót, afmælisár og lok starfsferils.Svolítið stór skammtur fyrir konu sem aldrei getur sungið með í Nú árið er liðið ... því röddin brestur alltaf nákvæmlega þegar ég hef sagt þessi orð. Verð hressari innan skamms, ég lofa.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband